What's going on in the kitchen?

cause I don't know what's cooking

laugardagur, október 28, 2006

Ha! Ég er komin í heimsókn. Stefnir allt í að ég muni fullnýta gestrisni Ingu Láru í bili. Því vefdagbókin mín er á gelgjunni og með nokkurt uppsteyt. Eftir mína eigin reynslu af gelgjuárunum ákvað ég því að best yrði að leyfa henni að pústa aðeins.
Ég heiti Sólveig Helgadóttir. Inga Lára er vinkona mín og samferðakona seinustu mánuði. Yndislegri manneskju er vart hægt að hugsa sér (haha, þessi setning er rosa fín því það er óvíst hvort ég er nú að vísa til mín eða Ingu, hahaha). Kann ég henni miklar þakkir fyrir að vera árrisul. Því ég sef alltaf yfir mig. Uppáhalds liturinn minn er grænn. Happatalan mín er 9 en hún hefur einungis fært mér ógæfu. Mér finnst gaman að lesa stjörnuspána í Stockholm City. En mér finnst það eiginlega bara gaman því þar fer stjörnuspáin eftir kínversku árunum. Ég er vatnabuffl. Inga er rotta held ég. Um daginn stóð í stjörnuspánni minni að ég ætti að undirbúa mig fyrir valdabaráttu. Kannski mun ég því í framtíðinni reyna að taka yfir þetta blogg. Allavega væri hægt að túlka stjörnuspána mína þannig. Eða þá að ég mun lenda í slag út af seinasta súkkulaðistykkinu. Það finnst mér afturámóti ólíklegra heldur en blogg valdabaráttan. Sem er þó einnig frekar ólíkleg. Hmmmm. Kannski er þetta hinn mesti ólíkindadagur. Jæja. Nóg um það.
Ég held ég sé komin með einkennalausan ferðanjálg. Ferðanjálgur er ólíkur hinum hefðbundna njálg. Upplýsingar um ferðanjálg er ekki hægt að nálgast í neinum bókum, né heldur á Wikipedia (sem þó innihleldur upplýsingar um ólíklegustu hluti). En ég er þó viss um að margur eyjabúinn veit um hvað ég er að tala.
Allt frá því að ég var smáflicka hef ég haft nokkurn áhuga á að fletta gegnum ferðabæklinga. Stoppa ég þá iðulega við auglýsingar um heimsreisur ýmiss konar. Hingað til hefur það aðallega verið fjárskortur sem hamlað hefur för minni. Þegar maður er 10 ára virkar upphæð einsog 237.000 kr óyfirstíganleg.
Voveifleg þróun virðist þó vera í aðsigi. Núorðið virðist sem það sé mestmegnis í tímamálum sem kreppir að (reyndar á ég svosem ekkert geigvænlega mikla fjármuni en kýs að setja þetta svona upp til að leggja áherslu á orð mín). Tek ég þessu sem tákni um að ég sé að eldast. Og, ojjjj, ef það er rétt ályktað þá er nú ljótt mál að verða fullorðin. Því ég er ALLTAF sein fyrir. Hvert fer allur þessi tími eiginlega. Mér líður einsog persónu í Momo eftir Michael Ende. En það, ásamt the BFG eftir Roald Dahl eru mikil meistarverk bókmenntasögunnar.
Hinsvegar er ekki úr vegi að minnast nokkrum orðum á annars konar hugarfarsbreytingu. Ég er smámsaman að búa mér til akkeri. Núorðið spái ég nefnilega meira og meira í því hvernig ég á að fara að því að kaupa mér íbúð, hvernig ég ætti að innrétta baðherbergið mitt, hvað mér finnst lítið gaman að mála en hvað það er samt alltaf sjarmerandi tilhugsun. Þetta finnst mér ágætis pælingar. Því áður fyrr virtist þess konar skuldbinding hrikaleg í mínum augum. Núna hugsa ég til þess með gleði í hjarta þegar ég mun í fyrsta skiptið geta sest á mitt eigið gólf og andað mínu eigin lofti. Ég vona að það verði ekki vond lykt af því.
Læt ég þetta gott heita. Inga sagði mér að kynna mig formlega. Vona ég að þetta dugi til. Án þess þó að ég verði henni til skammar á alvefnum. Ef svo er þá biðst ég formlega afsökunar í leiðinni. Fínt bara að hafa vaðið fyrir neðan sig svo: "Sorrí Inga ef ég hef skemmt ímynd þessa eldhúss."
Lýkur þar með lestri Sólveigarfregna.

3 Comments:

At 10:23 f.h., Blogger Jón Trausti Sigurðarson said...

Næsta hot sittið í bloggheimum verður "GESTABLOGG" úha! ýkt töff!

 
At 11:28 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

ég er svín. ekki rotta. hahh. ojbarasta. tvö ógó ekki sæt dýr. oj. get ekki hugsað meira um rottur, þá fæ ég martraðir. svo að ókei bless bara.

 
At 10:41 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Ég heiti líka Sólveig og uppáhaldsliturinn minn er líka grænn, merkilegt!

 

Skrifa ummæli

<< Home